Febrúar Miks

Image

Febrúar er langt liðinn og það er kominn tími á  að Benson færi ykkur vænlegan lagalista með því safaríkasta sem rekið hefur í eyrnatóftir hans.  2014 hefur farið vel af stað og hefur það alið af sér nokkrar áheyrilegar perlur.  Febrúar-Miksið er tileinkað fyrsta ryþmagítarleikara Devo sem er hljómsveit sem hefur haft gríðarleg áhrif á tónlistarsmekk Benson.  Bob Casale spilaði á fyrstu breiðskífu hljómsveitarinnar og nýlega bárust þau sorgartíðindi að hann kvaddi þennan heim á besta aldri.  Þetta upphafstef Miksins er að finna á safnplötunni Hardcore Devo Vol. 2 sem inniheldur upptökur frá fyrstu starfsárum þeirra.

Damaged Bug nýlegt sólóverkefni forsprakka Thee Oh Sees, John Dwyer.  Thee Oh Sees gáfu út eina af betri breiðskífum síðasta árs og hafa þau tilkynnt útgáfu á nýrri plötu á þessu ári.  Það svífur mikill Devo-andi yfir vötnum Damaged Bug sem gefur út hjá Castle Face Records líkt og Thee Oh Sees.  Annie Clark er án vafa einn mesti töffari sem komið hefur fram á tónlistarsviðið síðastliðin tíu ár í Bandaríkjunum.  Nýjasta breiðskífan er samnefnd St. Vincent og er hennar fjórða breiðskífa sem gefur Strange Mercy ekkert eftir.

Benson hefur ekki dýft sér af neinu viti í Grateful Dead en þó eru tvær breiðskífur þeirra algjört gúmmelaði, þ.e. Working Man‘s Dead og American Beauty.  Sú síðarnefnda hefur að geyma þennan gullmola.  Benson áskotnaðist fyrir nokkrum mánuðum eina af betri breiðskífum R. Stevie Moore, Glad Music.  Þessi ofvirki tónlistarmaður hefur haft mótandi áhrif á tónlistarmenn á borð við Ariel Pink, John Maus, Nite Jewel og The Samps.  Mogwai sendu í byrjun árs sína bestu skífu í mörg ár, Benson gafst að mestu uppá á þessum skosku herrum eftir að þeir gáfu út Rock Action.  Með útgáfu Rave Tapes sanna þeir að þeir eiga nóg inni.

Næstu tvö lög löðra í mjúkum svuntum sláandi bassa.  Starbuck gengu sitt blómaskeið í Bandaríkjnunum á áttunda áratugnum og er hinn japanski Himiko Kikuchi en í fullu fjöri og það er ekki laust við að hann sé andsetinn af sjálfum Jack Magnet.

Nýlega var tilkynnt um samstarfsskífu þeirra Lindstrøm, Todd Rundgren og Emil Nikolaisen úr skóglápsveitinni Serena-Maneesh.  Þetta samstarf er hreinn og beinn blautur draumur og er nafnið á afrakstrinum Runddans og mun líta dagsins ljós í sumar.  Þetta samstarf er einna helst sambærilegt því ef Maggi Kjartans myndi hefja samstarf með Árna Plúseinum og Henriki Björnsson í Singapore Sling og Dead Skeletons.

Liðskipan á nýjastu breiðskíf Neneh Cherry er alls ekkert slor.  Ekki nóg með að hún sé með betri söngkonum sem komið hefur á sjónarsviðið síðustu tuttugu ár þá fær hún sjálfa Robyn til að syngja með sér og vinur Bensons til margra ára, sjálfur Four Tet, sér um upptökustjórn og Rocketnumbernine sjá um undirleik.

Each Other eru án efa arftakar Women er að mati Bensons ein merkasta hljómsveit síðustu tíu ára.  Ný breiðskífa Each Other er væntanleg í næsta mánuði og eru það snillingarnir hjá Lefse sem græja þá útgáfu.

Döðlurnar í enda bulsunnar kemur frá Kanada og eru það útgáfurnar Hand Drawn Dracula og Artificial sem bjóða uppá þær.

Bruce Springsteen hefur aldrei farið í felur með aðdáun sína á svuntupönkurunum í Suicide og fer hann fögrum höndum um lag þeirra „Dream Baby Dream“ á nýjustu breiðskífu sinni sem á sína fínu spretti.  Lengi lifi yfirmaðurinn.

Njótið.

 1. Devo – Booji Boy’s Funeral
 2. Damaged Bug – Photograph
 3. St. Vincent – Rattlesnake
 4. Grateful Dead – Sugar Magnolia
 5. R. Stevie Moore – Norway
 6. Mogwai – Remurdered
 7. Starbuck – Moonlight Feels Right
 8. Himiko Kikuchi – Sunburned Hip
 9. Todd Rundgren – Breathless
 10. Lindstrøm – Another Station (Todd Terje Remix)
 11. Neneh Cherry – Out Of The Black featuring Robyn
 12. Each Other – Send Your Signals
 13. Doomsquad – Waka Waka
 14. Weeknight – Dark Light
 15. Tiers – Winter
 16. Bruce Springsteen – Dream Baby Dream

Janúar Miks

Image

Benson er vaknaður og skriðinn úr hýðinu sínu og færir ykkur einn velútlátinn pakka stútfullan af nýju og saðsömugúmmelaði í bland við nokkur vanmetin hnossgæti.   Í pakkanum má m.a. finna eitt af mest spennandi rokkböndum Íra í dag, Girl Band.  FEMME og Ben Khan er með því mest spennandi sem er í gangi í London í dag.  Metronomy eru að fara að senda frá sér sína fjórðu breiðskífu í mars og eru vægast sagt gríðarlegar væntingar í herbúðum Bensons.

East India Youth er eins manns verkefni frá Bournemouth í Englandi og heitir fyrsta breiðskífa hans Total Strife Forever og er hún eitt besta byrjendaverk sem Benson hefur heyrt lengi.  Það verður gaman að sjá kappann spila á Iceland Airwaves í haust.  Frá Bandaríkjunum kemur gríðarlega flott sýrupopp og skynvillurokk úr smiðjum Morgan Delt, Doug Tuttle og Woodsman.  Sólólistamennirnir Tom Brosseau, Kevin Morby og James Vincent McMorrow eru allir með nýjar breiðskífur í pípunum og eru jafnvel útkomnar og eiga það sameiginlegt að vera silkimjúkar.

Eternal Lips, Strange Names og Gardens & Villa bjóða uppá eggjandi jaðarnýbylgju og Thee Silver Mt. Zion Memorial Orchestra & Tra-La-La Band eru epísk og ómstríð að vanda.  Snowmine frá Brooklyn hljóma á köflum eins og eingetnir synir Benjamin Gibbard úr Death Cab For Cutie og The Postal Service.  Saâda Bonaire, Killamu og Xeno & Oaklander leggja á borð fína dillibossatóna og úr dýflissunni koma tvö gleymd bönd frá síðustu öld, þ.e. Animals & Men sem var frábært garage og síðpönk band sem starfaði stutt á áttunda áratugnum og Frosty sem gaf eingöngu út eina sjötommu nítjanhundruðsextíuogeitthvað.

Njótið!!

 1. FEMME – Fever Boy
 2. Girl Band – Lawman
 3. East India Youth – Heaven, How Long
 4. Angel Olsen – Forgiven/Forgotten
 5. Warpaint – Keep It Healthy
 6. Tom Brosseau – Cradle Your Device
 7. Kevin Morby – Harlem River
 8. James Vincent McMorrow – Cavalier
 9. Ben Khan – Savage
 10. Metronomy – I’m Aquarius
 11. Snowmine – Columbus
 12. Eternal Lips – Dream Hesitate (Feat. Sharon Van Etten)
 13. Gardens & Villa – Bullet Train
 14. Strange Names – Ricochet
 15. Saâda Bonaire – The Facts (Pharaohs Edit)
 16. Killamu – Melodia de Semba
 17. Xeno & Oaklander – Par Avion
 18. Morgan Delt – Make My Grey Brain Green
 19. Thee Silver Mt. Zion Memorial Orchestra and Tra-La-La Band – Austerity Blues
 20. Woodsman – Gravelines
 21. Doug Tuttle – With Us Soon
 22. Frosty – Organ Grinder’s Monkey
 23. Animals & Men – Evil Going On

Janúar // Miks


 
Það er nokkuð liðið frá síðustu syrpu og ekki mikið um reglulegar færslur. Ef þið viljið fylgjast með reglulegri færslum Bensons þá mæli hann eindregið með því að þið kíkjið reglulega á nýja bloggið hjá gogoyoko. Þar er nær daglega eitthvað topp stöff í gangi.
 
Hér fáið þið nú vænan skammt af því Benson þykir skara framúr á nýju ári. Eitthvað eru þó ekki ný lög en artistar sem eru með nýjar skífur í fæðingu og Benson bíður með gæs í hálsinum. Þetta stefnir í gott útgáfuár, svei mér þá verður tónlist alltaf betri og betri.
 
1. Alt-J – Fitzpleasure kaupa
2. Grimes – Oblivion kaupa
3. Avan Lava – Sooner Or Later kaupa
4. Lower Dens – Brains kaupa
5. Lee Ranaldo – Off The Wall kaupa
6. Screaming Females – Wild kaupa
7. CSLSX – Aeromancer (ft. Mountain Man) kaupa
8. Beat Culture – Shoreline kaupa
9. Sharon Van Etten – Mike McDermott kaupa
10. Himanshu – Womyn frítt
11. NZCA/LINES – Okinawa Channels kaupa
12. Django Django – Default kaupa
13. Islet – This Fortune kaupa
14. Virtual Boy – Motion Control kaupa
15. Black Bananas – Rad Times kaupa
16. Young Fathers – Deadline kaupa
17. Mount Eerie – Distorted Cymbals kaupa
18. Hospitality – Friends of Friends kaupa
19. Mikal Cronin – It Is Alright kaupa
20. Jagwar Ma – Come Save Me kaupa
21. Husband – Love Song kaupa
22. Bare Mutants – Inside My Head kaupa
23. Ilyas Ahmed – Skin In Circles kaupa
24. Jonquil – Mexico kaupa
25. First Aid Kit – Emmylou kaupa
26. Perfume Genius – Hood kaupa
27. o F F Love – Be Around U (Sail A Whale Mix) kaupa
28. Julia Holter – Goddess Eyes kaupa
 
Kapítuli 1 // Kapítuli 2

Bestu útgáfur ársins 2011

Hér eru nokkrar af eftirminnilegustu skífum ársins að mati Bensons. Þetta er alltaf jafn erfitt val og hefur Benson viðhaldið þeirri stefnu að velja þær útgáfur sem hann hlustaði mest á eða sköruðu fram úr af einhverju leiti.

Njótið!

# 30

Grimes / d’Eon – Darkbloom

Samkrull ársins er án vafa samsuðuskífa Montréal-búanna Grimes og d’Eon. Grimes dansar fiðurlétt á milli ólíkra tónlistarmanna á borð við Lykke Li, Alicia Keys, Xiu Xiu og Panda Bear á meðan d’Eon kallar fram áhrif úr Detroit-teknói og Alan Parson Project. Mögnuð blanda.

Hippos in Tanks / Arbutus; 2011

Kaupa

# 29

Danny Brown – XXX

Detroit-rapparinn Danny Brown er með skemmtilegri og hressari rapplista-mönnum sem hafa komið fram á sjónarsviðið síðan Dizzee Rascal sendi frá Boy In Da Corner hér um árið. Danny er framsækinn, fyndinn og ögrandi rappari sem fer ótroðnar slóðir sem heyrist í sömplum frá gæðasveitum á borð við This Heat, Metronomy, Fleet Foxes og Hawkwind.

Fool’s Gold; 2011

Kaupa

# 28

Wolves In The Throne Room – Celestial Linage

Olympia-sveitin Wolves In The Throne Room hafa löngu rutt sér rúm sem ein framsæknasta svartmálms-sveit Bandaríkjanna. Hljómsveitin hefur verið sett í flokk sem spekingar kalla Astral Black Metal

Southern Lord; 2011

Kaupa

# 27

GusGus – Arabian Horse

GusGus áttu gríðarlega vel heppnaða endurkomu á árinu og jafnvel endurfæðingu. Fyrir tveimur árum gáfu þeir út sína þyngstu og mestkrefjandi skífu á ferlinum og nú á árinu mættu þau með öll vopn hlaðin og hvert andartak þaulhugsað á þeirri fáránlega góðri plötu sem Arabian Horse er.

Smekkleysa/Kompakt, 2011

Kaupa

# 26

Hudson Mohawke – Satin Panthers

Hinn eitursnjalli Hudson Mohawke mætti á senuna með firnasterka þröngskífu sem þjappaði saman einni skrýtnustu og hressustu blöndu af reifi, raftónlist og dubsteppi sem Benson hefur heyrt. Cbat er eitt af betri lögum ársins.

Warp, 2011

Kaupa

# 25

Chelsea Wolfe – Ἀποκάλυψις

Hin drungalega og mikilfenglega Chelsea Wolfe sendi frá sér sína aðra skífu á árinu og heitir hún Ἀποκάλυψις (borið fram Apokalypsis). Þetta er skotheldur bræðingur af Earth, Sonic Youth, P.J. Harvey og Portishead.

Pendu Sound, 2011

Kaupa

# 24

King Krule – King Krule

King Krule (áður þekktur sem Zoo Kid) sendi frá sér sína fyrstu þröngskífu í haust og er hún eitt það ferskasta sem Benson heyrði á árinu. Blanda af lágfitli, sixtís-poppi og döbbi og bíður Benson spenntur eftir stórri plötu frá þessum unga og þrælefnilega tónlistarmanni.

True Panther Sounds, 2011

Kaupa

# 23

Unknown Mortal Orchestra – Unknown Mortal Orchestra

Unknown Mortal Orchestra átti eitt besta lag síðasta árs (Thought Ballune) og er þetta forvitnilega þríeyki sköpunarverk Ný-Sjálendingsins Ruban Nielson. U.M.O. tekst á samnefndri skífu að framreiða skothelda blöndu af hrárri skynvillu, hreinræktuðu indie-i, hip hop-i og kraut-rokki.

True Panther Sounds, 2011

Kaupa

# 22

Sin Fang – Summer Echoes

Hinn afkastamikli og klári tónlistarmaður Sindri Már Sigfússon sló ekki slöku við á árinu. Hann mætti galvaskur til leiks með sína aðra skífu undir nafninu Sin Fang og að þessu með heila hljómsveit í farteskinu og heilsteyptari plötu. Sindri er tilbúinn með sína þriðju skífu og hlakkar Benson til að heyra hana á komandi ári.

Morr Music, 2011

Kaupa

# 21

Death Grips – Exmilitary

Exmilitary er án efa vægðarlausasta og harðasta hip hop plata ársins. Maðurinn að baki Death Grips kallar sig Flatlander og einnig spila stór hlutverk þau MC Rider, Mexican Girl og kolgrabbatrymbillinn Zach Hill úr Hella, Nervous Cop og Team Sleep. Death Grips er e.t.v. pönkaðri útgáfa af Dälek og El-P og sömplin frá Black Flag og Link Wray eru ekki af verri endanum.

Third Worlds, 2011

Kaupa

# 20

Gang Related – Stunts & Rituals

Íslenski kvartettinn kom fram í sviðsljósið á árinu með ferska nýbylgjuskífu með vísun í nýrri og eldri sveitir, The Beach Boys, Wavves, The Zombies, Panda Bear og fleiri koma í hugann.

Brak, 2011

Kaupa

# 19

Kurt Vile – Smoke Ring For My Halo

Hinn tímalausi Kurt Vile sendi frá sér sína bestu plötu á árinu. Það mætti staðsetja tónlist hans einhversstaðar mitt á milli Sebadoh og seventís Lou Reed.

Matador, 2011

Kaupa

# 18

Eleanor Friedberger – Last Summer

Annar helmingur The Fiery Furnaces sendi frá sér sína fyrstu sólóskífu á árinu og á henni var hún alveg laus við tilgerðina og ofhleðslu stóra bróður síns. Last Summer minnir um margt á aðgengilegustu plötur The Fiery Furnaces og er það bara gott mál.

City Slang, 2011

Kaupa

# 17

Sólstafir – Svartir Sandar

Sólstafir hafa verið að lengi og eru sífellt að þróa og fága sinn stíl og hefur þeim aldrei tekist eins vel upp og á Svörtum Söndum. Hún er mikilfengleg og þung og í senn mjög aðgengileg þrátt fyrir löng lög. Sólstafir eru eins og Sigur Rós á sterum og brennivíni. Hinir íslensku Neurosis.

Brak, 2011

Kaupa

# 16

I’m Being Good – Mountain Language

Illskeyttasta og þyngsta plata I’m Being Good til þessa og jafnvel þeirra hnitmiðasta. Andar Melvins, Supreme Dicks og Crass svífa yfir vötnum.

Gringo, 2011

Kaupa

# 15

Walls- Coracle

Ásamt The Field náði London-tvíeykið Walls að gera eina af metnaðarfyllri rafskífum síðari ára, fullkomin blanda af straumlínulagaðri danstónlist og ómstríðu shoegaze. Ef Battles, Caribou og Slowdive myndu gera saman plötu myndi hún jafnvel hljóma svona.

Kompakt, 2011

Kaupa

#14

Reykjavík! – Locust Sounds

Ærslabelgirnir tilfinningasömu sendu frá sér sína bestu plötu til þessa í október. Locust Sounds er fjölbreyttasta og aðgengilegasta skífa sveitarinnar til þessa og inniheldur sveimhuga smelli í bland við öfgafulla rokkhnullunga.

Golden Circle; 2011

Kaupa

# 13

Toro Y Moi – Underneath The Pine

Chazwick Bundick sendi frá sér miðlungs plötu árið 2010 og spilaði sama ár á Iceland Airwaves og flutti aðallega lög af Underneath The Pine sem kom út á 2011 og var allt annað uppá teningnum. Chazwick ber af öðrum chillwave-urum enda mjög hæfaleikaríkur og lunkinn melódíusmiður sem heyrist vel í lögum á borð við Still Sound, New Beat og How I Know sem sameina allt það besta með Stereolab og Stevie Wonder.

Carpark; 2011

Kaupa

#12

Shabazz Palaces – Black Up

Shabazz Palaces er sköpunarverk fyrrum forsprakka Digable Planets, Ishmael Butler, og sendu þeir frá sér eina sérstæðustu hip hop skífu síðari ára fyrr á þessu ári. Black Up er margslungin og krefjandi og svipar til fyrri verka Ishmael og ef eitthvað er þá toppar hann sjálfan sig á þessari.

Sub Pop, 2011

Kaupa

# 11

Canon Blue – Rumspringa

Nashville-búinn Daniel James sendi frá sér heldur óvænta skífu á árinu. Rumspringa var að mestu tekin upp með dyggri aðstoð frá Efterklang og hinnar alíslensku Amiina. Canon Blue sver sig þó ekki í ætt við þessar sveitir heldur daðrar við stíla Steve Reich, Sufjan Stevens og Of Montreal. Gott kaffi.

Temporary Residence; 2011

Kaupa

# 10

Bill Callahan – Apocalypse

Bill Callahan er einn svalasti tónlistarmaður okkar tíma og á Apocalypse tekur hann mann á óvæntar slóðir án þess að kasta frá sér sínum helstu höfundareinkennum.

Drag City, 2011

Kaupa

#9

Sandro Perri – Impossible Spaces

Á Impossible Spaces tekst Sandro Perri að blanda saman á magnaðan hátt tilraunakenndum straumum úr raftónlist, rokki og djassi í bland við mjúka og fallega tóna án þessa að vera tilgerðalegur eða tormeltur.

Constellation; 2011

Kaupa

# 8

GaBLé – Cute Horsecut

GaBLé er sérkennilegt og skemmtilegt þríeyki sem kokkar upp hrærigraut sem inniheldur skringirokk, hip hop, glitch, kraut-rokk og allt þar á milli. Einstök sveit.

LoAF, 2011

Kaupa

#7

Battles – Gloss Drop

Í fyrra tilkynnti Tyondai Braxton að hann væri hættur sem söngvari og gítarleikari Battles og hófust strax umræður um að sveitin væri búinn að vera og þar eftir götunum. Eftirstandandi meðlimir létu brotthvarf hans ekki á sig fá heldur fengu til liðs við sig nokkra vel valda gestasöngvara og sendu frá sér sína bestu skífu til þessa. Battles hafa aldrei verið jafn einbeittir og skemmtilegir og á Gloss Drop.

Warp; 2011

Kaupa

# 6

Deerhoof – Vs. Evil

Deerhoof hafa ávallt verið í miklu uppáhaldi hjá Benson og á hverri plötu ná þau alltaf að matreiða eitthvað nýtt og spennandi en hljóma alltaf eins og þau sjálf en engin önnur. Vs. Evil er e.t.v. ekki þeirra besta skífa en hún er samt skrambi góð.

Polyvinyl; 2011

Kaupa

# 5

Metronomy – The English Riviera

Because, 2011

Kaupa

#4

P.J. Harvey – Let England Shake

P.J. Harvey er ólíkindatól sem kom Benson og flestum öðrum í opna skjöldu með Let England Shake sem er mögulega hennar besta plata.

Island, 2011

Kaupa

# 3

John Maus – We Must Become The Pitiless Censors Of Ourselves

Hinn sérvitri John Maus átti virkilega gott ár og kom þriðja breiðskífan hans honum rækilega á kortið og var nú kominn tími til. Skífan er óður til kvikmynda á borð við Robocop sem og tónlistarmanna á borð við Giorgio Moroder, Joy Division, Ultravox og Molly Nilsson sem syngur dúett með John Maus í Hey Moon.

Upset The Rhythm; 2011

Kaupa

#2

tUnE-yArDs – w h o k i l l

4AD; 2011

Kaupa

# 1

St. Vincent – Strange Mercy

Annie Clark kom, sá og sigraði Benson með sinni þriðju breiðskífu. Benson hefur ávallt gefið St. Vincent gaum allt frá því hún heimsótti Ísland árið 2006 en með Strange Mercy náði hún að slá hann út af laginu. Þessi plata hefur svo margt fram að færa, nánast óaðfinnanleg blanda af fegurð og ljótleika, tilraunamennsku og poppi og flutningur Annie og félaga mikilfenglegur og næstum guðdómlegur.

4AD; 2011

Kaupa

KOMPAKT

Kompakt Records í Köln eru og hafa lengi verið einn mest spennandi techno-leibellinn beggja vegna Atlantsála síðasta áratuginn eða svo.  Það er nánast hægt að ganga að því vísu að það sem útgáfan setur merki sitt á er algjört gæðastöff.

Fljótlega kemur út ný breiðskífa með arkitektnum brasilíska Gui Boratto sem gaf út sína fyrstu breiðskífu, Chromophobia, árið 2007.  og var hún í miklum metum hjá Benson.  Nýjastbreiðskífan hans heitir III og er eins og nafnið gefur til hans þriðja breiðskífa.  Nýjasta smáskífan er komin og heitir The Drill og lofar góðu.

Gui Boratto – The Drill

Frá London kemur tvíeykið Walls og er skipað þeim Alessio Natalizia og Sam Willis sem einnig starfrækja hljómsveitirnar Allez Allez og Banjo Or Freakout.  Walls gáfu út samnefnda plötu í fyrra og er hún mikill gæðagripur og nú er komin smáskífan Sunporch sem svakalega hressandi stöff í anda Caribou, Battles, Gui Boratto og James  Holden.

Walls – Sunporch

 

Fantagott miks

Benson er smátt og smátt að skríða út úr hýðinu sínu og ætlar að brjóta odd af oflæti sínu með einu fantamiksi. Þetta er smá tóndæmi af því sem Benson hefur verið að japla á síðustu vikur og mánuði, hálfgert best of eiginlega.

Þetta er slatti og verður stiklað á stóru.  Byrjum þetta á Cut Copy sem eiga bestu tónleika ársins só far, þeir stóðust allar væntingar og vel það (Benson hefur verið fan síðan hann heyrði Bright Like Neon Light um árið).  Benson hefur sömuleiðis ekki farið í felur með aðdáun sinni á John Maus enda er nýjasta breiðskífan hans pjúra snilld.  Grimes er með sérstakari söngkonum í dag og líkar Benson vel, sömuleiðis er endurmiksið hennar af Washed Out afar gott.   Íslandsvinirnir í Crystal Antlers eru mættir með nýja plötu, þeir gerðu stormandi lukku á Iceland Airwaves 2009 og sömuleiðis Elanor Friedberger þegar hún mætti á Airwaves hér um árið ásamt The Fiery Furnaces.  Besta mash-up síðari ára verður að vera þeirra sem standa að baki Wugazi (Wu Tang Clan og Fugazi) – það er einfaldlega of gott enda er þetta samansettur bræðingur tveggja af áhrifamestu sveita allra tíma.  Buddy Holly tribjút-platan er ágæt, sumt hrútleiðinlegt annað gott og eiga bestu sprettina þau Modest Mouse og Florence + The Machine.   Modern Witch er í boði Selected Songs sem er án efa langflöttasta íslenska tónlistarbloggið í dag.

Fantabetra / Fantabest

 1. Cut Copy – Where I’m Going (kaupa)
 2. John Maus – Head For The Country (kaupa)
 3. EMA – California (kaupa)
 4. Grimes + D’eon – Vanessa (kaupa)
 5. Modern Witch – Not The Only One (heimasíða)
 6. Prurient – A Meal Can Be Made (kaupa)
 7. Wugazi – Ghetto Afterthought (streyma)
 8. Paleo – Over The Hill and Back (kaupa)
 9. Crystal Antlers – Summer Solstice (kaupa)
 10. Jon Spencer Blues Explosion – Black Betty (kaupa)
 11. The Men – Shittin’ With The Shah (kaupa)
 12. Casa Del Mirto – Killer Haze (kaupa)
 13. Washed Out – Soft (kaupa)
 14. Washed Out – Eyes Be Closed (Grimes Remix)
 15. Metronomy – The Bay (kaupa)
 16. Eleanor Friedberger – Roosevelt Island (kaupa)
 17. Florence + The Machine – Not Fade Away (kaupa)
 18. Work Drugs – Rad Racer (kaupa)
 19. Iceage – White Rune (kaupa)
 20. Eric Copeland – Land of Foot (kaupa)
 21. NODZZZ – Always Make Your Bed (kaupa)
 22. Bibio – K is For Kelson (kaupa)
 23. Coma Cinema – Caroline, Please Kill Me (kaupa)
 24. Campfire OK – Strange Like We Are (kaupa)

Ekki dauður

Örvæntið ekki, Benson er ekki dauður.  Það styttist óðum í fáránlega stóra færslu enda er fáránlega mikið magn af eðalmúzík búin að mjatla í eyrum síðustu mánuði.  Grimes sendir frá sér nýja breiðskífu í ágúst og eru eftirvæntingar í herbúðum Bensons miklar enda er þetta lag fáránlega sætt og gott.

%d bloggurum líkar þetta: