Það besta 2010

#50 The Fall – Your Future Our Clutter

Mark E. Smith er að því virðist ódauðlegur andskoti og hlýtur því hér heiðurssætið á þessum lista.  Karlinn er kominn vel á sextugsaldurinn og sendir frá sér eina bestu plötu The Fall á þessari öld – ef ekki þá bestu.  Hann rekur reglulega meðlimi The Fall eða þeir gefast upp og yfirgefa hann.  The Fall er og hefur yfirleitt snúist í kringum Mark sem eitt sinn sagði: „If it’s me and your granny on bongos, it’s The Fall.“   Your Future Our Clutter er firnasterk og hnitmiðuð í alla staði.  Hún hljómar að sjálfsögðu eins og flest sem sveitin hefur gert áður en gerir það vel.

#49 Factory Floor – Lying

Factory Floor er hljómsveit sem Benson því miður varð af að sjá á Iceland Airwaves í fyrra.  Þetta háværa London-þríeyki sendi frá sér þessa mögnuðu þröngskífu í fyrra sem er undir sterkum áhrifum frá Throbbing Gristle, Cabaret Voltaire, Suicide og eins og nafnið gefur kannski til Factory Records.  Líkt og þónokkrar nýjar sveitir kynda Factory Floor undir þeirri von um að Englendingar geti í raun samið framúrskarandi tónlist.

#48 Mark McGuire – Living With Yourself

Mark McGuire er forsprakki ný-krautsveitarinnar Emeralds sem sendi frá sér alveg fína skífu í fyrra er nefnist „Does It Look Like I’m Here?“ en þessi persónulega sólóskífa Mark er Benson meira að skapi.  Tónlistin er nútímalegt kraut skreytt með melódísku og dreymandi gítarspili og sömplum úr fjölskylduveislum, afmælum o.s.frv..   Umslagið prýða myndir af fjölskyldumeðlimum Mark.

#47 Jonas Reinhardt – Powers Of Audition

Jonas Reinhardt sólóverkefni sem síðar varð hljómsveit San Francisco-búans Jesse Reiner.  Hann fékk vini sína með sér til að spila með sér og eru það engir aukvissar.  Um er að ræða Phil Manley úr Trans Am, Damon Palermo úr Mi Ami og Diego Gonzalez sem hefur verið kenndur við prýðissveitir á borð við Citay og Tussle.  Jonas Reinhardt er hreinræktað nútímakrautrokk sem sem er undir sterkum áhrifum frá Jean Michel-Jarre, Popol Vuh, La Dusseldorf, Tangerine Dream og fleirri gæðasveita.  Benson er sökker fyrir góðu kraut-rokki og Jonas á góða spretti á Powers of Audition.

#46 The Books – The Way Out

The Books sendu frá sína „hressustu“ plötu til þessa á árinu 2010.  Þetta tvíeyki hefur mikla sérstöðu og algjörlega sinn eigin hljóm þar sem sundurklipptum gíturum, raddsömplum, söng og allskyns smekklegum hljóðum og óhljóðum er otað saman.  Útkoman er mögnuð og að mati Benson besta og ævintýralegasta plata The Books til þessa.

#45 Les Savy Fav – Root For Ruin

Les Savy Fav er ein mikilvægasta og hreinræktaðasta jaðarrokksveit síðustu fimmtán ára sem einnig státar af einum  flottasta forsprakka sem sögur fara af.  Tim Harrington er frábær söngvari og framkoma hans minnir á yngri og ofvirkari útgáfu af Goddi.  Root For Ruin beinskeytt og ekta Les Savy Fav plata.   Krafmikill, glöð og óbeisluð – líkt og maður vill hafa plötur.  Ekki eins góð og „Let’s Stay Friends“ en engu að síður magnað stykki frá magnaðri sveit.

#44 Ted Leo & The Pharmacists – Brutalist Bricks

Benson hefur lengi frekar svag fyrir Ted Leo og hljómsveit hans The Pharmacists og sérstaklega breiðskífunum “Tyranny of Distance” og “Hearts of Oak”.  Á The Brutalist Bricks fetar hann svosem kunnulegar slóðir en gerir það frábærlega og svo maður nafntogi aðeins þá hræra Ted og skósveinar hans gítardrifnum tónlistarblæjum úr smiðju Elvis Costello, Fugazi, The Clash, Spoon, Thin Lizzy, The Hold Steady o.s.frv..  Ted Leo er samt sem áður alltaf hann sjálfur og það heyrist vel á þessari vellukkuðu skífu.

#43 Reykjavík! – Cats EP

Reykjavík! hafa frá stofnun verið Benson mjög kær og mæt sveit.  Þeir eru eins og gott rauðvín, kraftmeiri og betri með árunum.  Þessi stuttskífa inniheldur Pantera-lega lagið Internet og eitt besta lag sveitarinnar til þessa, Cats.  Það er hrein unun að heyra Bóas syngja svona undurljúft sem hefur svosem ekki verið venja hingað til.

#42 OFF! – First Four EPs

Fyrrum söngvari Kaliforníu-hardcoresveitanna Circle Jerks og Black Flag, Keith Morris, sendi óvænt frá sér frábærar fyrir stuttu og var þeim svo öllum safnað saman hér á hina réttnefndu First Four EPs.  Með honum í för eru meðlimir sveita á borð við Rocket From The Crypt, Hot Snakes, Redd Kross og Burning Brides.  Tónlistin er ekkert kjaftæði, heldur bara hreinræktað Kaliforníu-pönk eins og það gerðist best undir lok áttunda áratugarins og í byrjun þess níunda og það er allsengin gömlukarlafýla af þessu.

#41 Unknown Mortal Orchestra – EP

Litlar sem engar upplýsingar eru til um þessa réttilega nefndu sveit.   Það eina sem Benson veit er að sveitin kemur frá Portland í Oregon-ríki og hljómar hún fjári vel.  Þetta er einskonar snilldarbræðingur af Rolling Stones og Royal Trux með sterkum keim af hipphoppi og vænu sýrudassi.  Benson getur vart beðið eftir stórri skífu frá þessu bandi.

#40 Xiu Xiu – Dear God I Hate Myself

Jamie Stewart fer fyrir hinni ætíð ögrandi sveit Xiu Xiu. Tæp átta ár hafa liðið frá því Benson heyrði fyrst frumburðinn og stóð ekki á sama þar sem hann gengur ávallt skrefinu lengra en flestir. Xiu Xiu náði áður ómældum hæðum á hinni mögnuðu “Fabulous Muscles” og var “Women As Lovers” ekkert slor. Sjöunda breiðskífa sveitarinnar  er mögnuð og heitir hún Dear God, I Hate Myself og tekst honum sem fyrr að spila á flestar nótur tilfinningaskalans og aðallega þær erfiðustu.

#39 Perfume Genius – Learning

Eina brothættustu plötu ársins á hinn hýri Mike Hadreas sem sendi frá sér þennan frumburð í fyrra.   Textar plöturnar eru margir hverjir mjög hjartnmæmir og sorglegir og maður kemst ekki hjá því að vera djúpt snortin því flutningur er beint frá hjartanu.  Án efa er eitt fallegasta lagið „Mr. Peterson“ sem er saga af fyrrum kennara Mike sem endar líf sitt með sviplegum hætti.   Tónlistarlega má e.t.v. setja í flokk með tónlistarmönnum á borð við Sufjan Stevens, Grizzly Bear, Xiu Xiu og Daniel Johnston svo nokkrir séu nefndir.

#38 Kanye West – My Beautiful Dark Little Fantasy

Kanye West hefur eiginlega aldrei náð til Bensons fyrren nú.   Útsetningar, taktar og sömpl eru nánast alveg skotheld á My Beautiful Dark Little Fantasy og ekki skemmir nærvera Bon Iver, Jay-Z og RZA.

#37 Forest Swords – Dagger Paths

Eins manns prójektið Forest Swords rakst á fjörur Bensons snemma í fyrra og hreif hann strax með sér.  Fyrir sveitinni fer Bristol-búi nokkur að nafni Matthew Barnes og kokkar hann saman frábærum koketil sem inniheldur sterkt bragð af dub-i og tengdu dubstep-i sem er svo blandað listarlega við eyðimerkurlegt chillwave, póstrokk og e.t.v. smá dass af Bollywood-tónlist.

#36 Hot Chip – One Life Stand

Mjúkdansnerðirnir í Hot Chip klikkuðu ekki á því á sinni fjórðu breiðskífu.  Thieves In The Night og titillag plötunnar er með betri dansismellum síðasta árs, Hot Chip eru ekki bara dansisveit – þeir eru ein af betri poppsveitum nútímans.

#35 Apparat Organ Quartet – Pólýfónía

Langþráð breiðskífa Apparat Organ Quartet sveik ekki og er e.t.v. meiri rokkköggull en fyrirrennarinn.  Benson missti því miður af útgáfukonsertnum sem ku hafa verið með þeim betri í fyrra.

#34 Joanna Newsom – Have One On Me

Joanna Newsom sendi frá sér sína þroskuðustu og bestu skífu á síðasta ári og er hún enginn kettlingur frekar en fyrri verk hennar.  Joanna er einn magnaðasti talent sem komið hefur fram á síðustu árum og leggur mikinn metnað í plötur sínar, kannski að klassísk menntun hennar komi þar að.   Áhrif sín sækir hún til kynsystra sinna á borð við Karen Dalton, Kate Bush, Judee Sill sem og nútímatónskálda á borð við Van Dyke Parks og Terry Riley.  Strengjaútsetningarnar á Have One On Me eru algjört nammi og söngur hennar hefur aldrei verið jafnflottur, eins og vel þroskaður ávöxtur eða blóm í fullum blómstra.

#33 ceo – White Magic

Eric Berglund er annar helmingur hinnar glaðværu og ungæðislegu sænsku dansisveitar The Tough Alliance.  White Magic er aðeins meira fullorðins en samt rosalega mikið fjör.  Snilldarlega útsett og dramatísk danspopp plata og með alsænskum tilþrifum sem eru engu lík.

#32 Ceremony – Rohnert Park

Ceremony eru frá Oakland í Kaliforníu og má ekki rugla við Ceremony frá Fíladelfíu-ríki sem spilar horftískónarokk í anda Lush, The Jesus and Mary Chain o.fl.  Ceremony frá Oakland spila hreinræktað skítapönk í anda Circle Jerks en henda svo í pottinn áhrifum letilegra og mikilvægra sveita á borð við Nada Surf, Pavement og Camper Van Beethoven.

#31 Swords Of Chaos – The End Is As Near As Your Teeth

Swords of Chaos sendu frá sér einn harðasta köggul ársins og heitir “The End Is As Your Teeth”.  Sterk áhrif úr svartmálmi, óhljóða-ambienti og agressífu gítarrokki framreitt á mjög útpældan hátt.   Skömm hvað það fór lítið fyrir sveitinni á tónleikasviðinu á liðnu ári en von er á sveitinn láti gamminn geysa í ár.

#30 Trumans Water – O Zeta Zunis

Ein uppáhaldssveit Bensons til margra ára sneri aftur með sína fjórtándu breiðskífu í fyrra og var það aðdáandi til margra ára sem gafa gripinn út, sjálfur Sufjan Stevens.  Tónlistarlega er fátt líkt með Trumans Water og Sufjan Steven.

Trumans Water voru þónokkuð nafntogaðir á fyrstu starfsárum sínum og var oftast líkt við nágranna sína í Pavement, enda báðar Kaliforníu-sveitir í grunninn og voru plötur beggja sveita collage-skreyttar í bak og fyrir.  Þrátt fyrir mörg líkindi hafa Trumans Water alltaf verið ærslafyllri og óbeislaðri og sögðu sumir blaðamenn Pavement hljóma eins og U2 eða m.a.s. Kenny G eins og Pitchfork skrifuðu í einum dómnum.

Áhrif sveitarinnar koma víða að, m.a. frá The Fall, Swell Maps, Faust, Sun City Girls, Stooges, Sun Ra, Polvo, Boredoms o.fl..  Listinn yfir ólíka tónlistarmenn sem þeir hafa deilt sviðum og túrað með er nánast endalaus og má þar nefna Stereolab, Fugazi, Beck, Guided By Voices, The Jesus Lizard, Sonic Youth, Boredoms, Blonde Redhead, Polvo, Frog Eyes, Fu Manchu, The Fall, American Music Club og hina alíslensku gæðasveit Stilluppsteypu.   Listinn yfir útgáfur þeirra er nánast lengri.

Benson var glaður að fá drengina til leiks á ný á plötu sem fór undir radarinn hjá flestum.  Plata sem er ekki gallalaus en samt helvíti fín.

#29 Quadruplos – Quadruplos

Reykvísku æringjarnir í Quadruplos komu loks uppá yfirborðið eftir að hafa verið til nánast bara á Myspace í nokkur ár.  Tónlistin er dub-skotið óhljóðareif sem sækir m.a. áhrif sín í það merkasta sem var í gangi í danssenunni í Chicago og Detroit á  níundaáratug síðustu aldar og eru alveg hreint til fyrirmyndar.

#28 Caribou – Swim

Dan Snaith fer fyrir Caribou og hefur aldrei gert sömu plötuna tvisvar, hver plata er stökk frá þeirri sem kom á undan.  Swim er e.t.v. stærsta stökkið hingað, hálfgerð klúbbaplata sem Benson var lengi að taka í sátt.   En þvílík ánægja þegar breiðskífan síaðist inn og inniheldur hún m.a.s. eitt af bestu lögum ársins, Odessa.

#27 Surfer Blood – Astro Coast

Astro Coast barst Benson til eyrna seint á árinu 2009 en kom þó ekki út fyrren í byrjun 2010.  Tónlistin er hreinræktað indie undir sterkum áhrifum frá sveitum á borð við Guided By Voices, Archers of Loaf, Pavement og Fugazi.   Hljómsveitin reynir aðeins að fitla við afro-popp sem fer henni ekkert sérstaklega vel, Vampire Weekend, The Very Best og Fools Gold gera það mun betur en Surfer Blood.   Surfer Blood vinnur ef þessar sveitir myndu keppa í því að gera gott og hreinræktað indie.

#26 Tobacco – Maniac Meat

Tom Fec er forsprakki hinnar mögnuðu sveitar Black Moth Super Rainbow.  Sólóverkefni hans er súrasta partíplata ársins.  Sjálfur meistari Beck mætir til  leiks í tveimur lögum.

#25 Miniature Tigers – Fortress

Fortress bætti upp vonbrigði ársins sem eru án efa þriðja breiðskífa Midlake sem aldrei vandist og varð eiginlega leiðinlegri við ítrekaðar hlustanir.  Miniature Tigers gera út og margar af áhugaverðari sveitir síðari ára frá Brooklyn í New York en koma upprunalega frá Phoenix í Arizona.   Tónlistin er hreinræktað sýrupopp sem runnið er undan rifjum  ELO, Of Montreal, Olivia Tremor Control, Syd Barret, Animal Collective o.s.frv..

#24 Zola Jesus – Stridulum II

Eina drungalegastu plötu ársins á tónlistarkonan Nika Roza Danilova sem semur og gefur út tónlist undir nafninu Zola Jesus.  Tónlistin myrk og undir miklum gota-áhrifum en er nógu melódísk til að halda manni við efnið allan tíman.   Áhrif frá tónlistarmanna á borð við Lydia Lunch, Siouxsie and The Banshees, Diamanda Galas, Joy Division má greina hér og þar á skífunni.  Rödd Niku heltekur mann í hinu magnaða „Manifest Destiny“.   Hún trónir á toppi drungans ásamt  Karin Dreijer Anderson úr Fever Ray og The Knife.

#23 Black Keys – Brothers

Þeir Dan Auerbach og Patrick Carney hafa iðnir við kolann alla sína tíð og sent frá fínar skífur en aldrei hitt Benson eins vel í hjartastað og með Brothers.  Brothers er stútfull af grípandi smellum með glitrandi og hráum sálarneista.

#22 Black Mountain – Wilderness Heart

Stephen McBean og föruneyti hefur vart klikkað hingað til.   Líkt og hljómsveitirnar The Pink Mountaintops og Lightning Dust sækir Black Mountain áhrif sín í rokksveitir frá áttunda áratugnum.  Feit og tilkomumikil gítarriffin eru umlukinn dulúðarfullum nornasvuntum  og fullkomnuð með seiðandi samsöng Stephen McBean og Amber Webber.  Black Mountain eru ógeðslega svöl.

#21 Pill Wonder – Jungle/Surf

Seattle sveitin Pill Wonder rak á óvænt á fjörur Bensonsskíris á árinu.  Sveitin telur sjö meðlimi sem saman ægja hressandi og úrkynjaða blöndu með vott af Neutral Milk Hotel, Beach Boys, Danielson, Panda Bear o.fl..  Nýja platan heitir Jungle/Surf og er átta laga og var tekin upp með hinu úrsérgengna upptökuforriti Cool Edit Pro í tölvu sem rétt svo lifði af upptökurnar.  Útkoman er súr og hressandi.

# 20 Miri – Okkar

Austfirska fjórmenningssveitin sendi á árinu bestu síðrokksskífu síðari ári.  Benson gafst uppá því tónlistarformi í byrjun aldarinnar en Miri náðu að kveikja von með sínu glaðværa og melódíska samspili.  Það er nánast veikan punkt að finna skífunni og hljóðútsetning Curvers Thoroddsen lyftir tónlist Miri á æðra plan.  Myndbandið við Sumarið 2009 er einnig eitt það skemmtilegasta sem sést hefur lengi.

# 19 Waaves – King of The Beach

Nathan Williams á aðra tilkomumestu endurkomu ársins.  Eftir að hafa fengið hálfgert taugaáfall á sviði eftir að hafa innbyrt óhóflegt magn af verkjalyfjum, kannabisefnum og alsælu voru allmargir búnir að afskrifa þennan unga en hæfileikaríka tónlistarmann.  Fyrstu tvær breiðskífur Wavves voru teknar uppá af mikilli vankunnáttu átta rása Tascam-kassettutæki með alla mæla eldrauða  og hljómurinn eftir því.  Sólskinsbrennt og melódísk hrárokk fær hinsvegar að njóta sín til fullnustu á „fáguðustu“ og bestu skífu Wavves til þessa.  Hinar voru góðar en þessi er frábær.

# 18 Sun City Girls – Funeral Mariachi

Svanasöngur einnar skrítnustu og afkastamestu hljómsveit síðustu áratuga.   Útgáfur Sun City Girls telja hátt í sextíu og eru margar hverjar í tormeltari kanntinum.  Funeral Mariachi var tekin upp nokkrum mánuðum fyrir andlát trommarans Charles Gocher árið 2007 og ákváðu hinir meðlimirnir, bræðurnir Richard og Alan Bishop að leggja sveitina niður eftir tuttugu og sjö ára starf.  Funeral Mariachi er ein aðgengilegasta og fallegasta útgáfa þessarar sveitar og ber sterkan svip af verkum Ennio Morricone, mariachi tónlist, Tom Waits o.fl..  Sun City Girls hafa haft mótandi áhrif á hljómsveitir á borð við Animal Collective, Gang Gang Dance, Trumans Water og mælir Benson eindregið með að fólk kynni sér þessa merku sveit.

#17 Anika – Anika

Geoff Barrow ættu flestir að þekkja sem forsprakka hinnar mögnuðu Portishead.  Fyrir stuttu komst hann í kynni við blaðakonuna Aniku og tóku þau ásamt hljómsveitinni Beak> þessa mögnuðu skífu sem er undir sterkum dub- og síðpönkáhrifum.  Söngstíll Aniku minnir um margt á hina sálugu Nico og passar vel við berstrípuðu tóna Beak>.

# 16 Matthew Dear – Black City

Matthew Dear á rætur sínar að rekja í klúbba- og danssenu Detroit og framan af ferli var hann eftirsóttur dansplötusnúður og pródúsent.  Líkt og á síðasta meistarastykki sínu, Asa Breed, einblínir hann á framsækið fullorðinspopp í anda Brian Eno.

#15 Seabear – We Built A Fire

Fyrstu tvær skífur Seabear voru hálfgerðar sólóskífur Sindra Más Sigfússonar.  Á We Built a Fire er Seabear orðin fullskipuð sjö manna sveit sem semur öll lögin í sameiningu.  We Built a Fire er meira keppnis en fyrirrennararnir, álíka kósí en með örlítið meira attitjúdd.

#14 Los Campesinos! – Romance Is Boring

Los Campesinos! frá Wales er hljómsveit Benson hefur ekki gefið of mikinn gaum þó svo að leyfði þeim að hljóma á öldum ljósvakans í hinum sáluga Marzípan á Rás 2 á árinu 2006 þegar sveitin var nýstofnuð. Það er enginn hægðarleikur að benda fingri á þessa hljómsveit er um margt ansi mögnuð. Þau eru afar bresk en í hljómvegg sveitarinnar má heyra áhrifa víða að í hugann koma Skotarnir sálugu í The Delgados, Pavement, Deerhoof og önnur mögnuð bresk sveit sem lagði upp laupanna á síðustu öld og heitir Quickspace.

#13 Avi Buffalo – Avi Buffalo

Avi Buffalo eiga næstbestu plötuna sem lítur dagsins ljós frá Sub Pop í ár og er hún samnefnd sveitinni sem kemur frá Long Beach.  Þessir unglingar hrista saman hjartnæmt indiepopp í anda The Shins, Built To Spill og Danielson Famile og eiga eitt af eitt af betri lögum ársins, What’s In It For, sem fyllir hjarta Bensons af sólskini.

#12 Coma Cinema – Stoned Alone

#11 Jónsi – Go

#10 Sufjan Stevens – Age of Adz

#9 Just Another Snake Cult – The Dionysian Season

#8 Tame Impala – Innerspeaker

#7 Fang Island – Fang Island

#6 Beach House – Teen Dream

#5 LCD Soundsystem – This Is Happening

#4 These New Puritans – Hidden

#3 Deerhunter – Halcyon Digest

#2 Ariel Pink’s Haunted Graffiti – Before Today

#1 Women – Public Strain

Join the Conversation

1 Comments

Færðu inn athugasemd